Geir Sæmundsson, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, hefur sagt upp störfum hjá fyrirtækinu og mun hann hafa tilkynnt þetta á fundi með starfsmönnum í gær. Geir staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið í gær og sagði að honum hefði boðist starf á öðrum vettvangi. Hann færi frá Atlantsolíu sáttur við rekstur og þróun félagsins enda hefðu það náð þeim markmiðum sem það hefði sett sér.

Geir er fæddur árið 1964 í Reykjavík. Eftir próf í byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands lagði hann stund á rekstrarverkfræði við IIT háskólann í Chicago. Eftir nám hóf hann vinnu hjá Íslenskum aðalverktökum og dótturfélögum þeirra og var framkvæmdastjóri Ísafls 1997-1998. Að því loknu varð hann forstöðumaður innanlandsdeildar Eimskips og var yfir innanlandskerfi Eimskips og Flytjanda allt til loka ársins 2004. Þá hóf hann störf hjá Atlantsolíu sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins.