Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech opnaði 7% lægra í morgun og hefur lækkað um 1% til við­bótar í fyrstu við­skiptum. Gengi félagsins lækkaði um 8% í yfuir hálfs milljarðs viðskiptum í gær.

Gengi líf­tækni­lyfja­fé­lagsins stendur nú í 1745 krónum sem er 29% lægra en dagsloka­gengi fé­lagsins fyrir mánuði síðan 26. febrúar.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech byrjaði að hækka undir lok síðasta árs en rauk síðan upp í janúar og febrúar þegar von var á niður­stöðu út­tektar Lyfja- og mat­væla­eftir­lits Banda­ríkjanna (FDA) á fram­leiðslu­stöðu fyrir­tækisins.

Rauk upp eftir 23 milljarða viðskipti

Þann 26. febrúar gekk Al­vot­ech að til­boði frá hópi fag­fjár­festa í al­mennra hluta­bréfa í fé­laginu að verð­mæti um 22,8 milljarðar króna á genginu 2.250 krónur á hlut. Dagsloka­gengi Al­vot­ech eftir við­skiptin var 2.450 krónur og hafði þá aldrei verið hærra.

Sam­kvæmt árs­upp­gjöri 2023 tapaði Al­vot­ech 551,7 milljónum Banda­ríkja­dala sem sam­svarar 76 milljörðum króna á meðal­gengi dals gagn­vart krónu í fyrra. Mun það vera sam­bæri­legt tap og árið 2022 þegar fé­lagið skilaði 513,6 milljóna dala tapi sem sam­svaraði 73 milljörðum á þá­verandi gengi.

Spá töluverðri tekjuaukningu í ár

Heildar­tekjur líf­tækni­lyfja­fyrir­tækisins á árinu námu 93,4 milljónum dala sem sam­svarar um 13 milljörðum ís­lenskra króna, sem er 10% aukning frá fyrra ári.

Sam­kvæmt af­komu­spá Al­vot­ech fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að tekjur verði á bilinu 300- 400 milljónir dala í ár.

Í af­komu­spánni er gert ráð fyrir að Simlandi, líf­tækni­lyfja­hlið­stæða Al­vot­ech sem hlaut markaðs­leyfi í Banda­ríkjunum og verður fyrsta hlið­stæða við gigtar­lyfið Humira, komi á markað á öðrum árs­fjórðungi.

Þá er stefnt að því að koma AVT04, ein­stofna mót­efni og líf­tækni­lyfja­hlið­stæða við Stelara, á markað á fjórða árs­fjórðungi.

Sam­kvæmt af­komu­spánni er gert ráð fyrir að EBITDA fé­lagsins verði á bilinu 59 til 150 milljónir dala árið 2024.