Gengi hlutabréfa Apple rauf 700 dala múrinn til skamms tíma í dag og hafði það þá aldrei verið hærra. Kapphlaup tækjafíkla um nýjan iPhone-síma Apple sem kynntur var til sögunnar í síðustu viku skýra gengishækkunina, að því er fram kemur í netútgáfu bandaríska dagblaðsins USA Today.

Síminn kemur á markað á föstudag og hefur verið hægt að festa sér hann í forsölu frá í síðustu viku. Eftirvæntingin hefur aldrei verið meiri en rúmlega tvær milljónir síma seldust á fyrsta sólarhringnum eftir að opnað var fyrir forsölu. Það eru tvöfalt meira en seldist af iPhone- 4S í forsölu og langt umfram væntingar.

Gengi hlutabréfa Apple hefur verið á fleygiferð um árabil. Það stóð í um 200 dölum á hlut þegar kreppan reið yfir haustið 2008 og hrundi niður í rúma 130 dali á hlut. Fyrir um ári stóð það í 400 dölum á hlut og fór yfir 700 dalina í dag.