Frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um gengisbundin lán var lagt fram í ríkisstjórn í dag.

Í fréttatilkynningu segir að markmið frumvarpsins sé að tryggja öllum einstaklingum sem tóku gengisbundin fasteignaveðlán eða bílalán lægri eftirstöðvar, til samræmis við dóm Hæstaréttar.

Rúmlega 37 þúsund heimili eru með slík lán, en það eru þriðjungur heimila í landinu. Skuldir heimilanna lækka um 40-50 milljarða króna við þessa aðgerð, að meðaltali um nærri eina og hálfa milljón á heimili með gengisbundið lán.

Fá 30 daga til að reikna

„Markmið frumvarpsins er að tryggja sanngirni, þ.e. að allir lántakendur fái þann ávinning sem dómur Hæstaréttar boðar, óháð orðalagi lánasamnings. Jafnframt verður skilvirkt uppgjör skulda tryggt og lánastofnunum veitt 30 daga hámark til að endurreikna gengisbundin lán eða 60 daga hámark í þeim tilfellum sem eigendaskipti hafa orðið. Í þeim tilfellum er jafnframt gengið úr skugga um að sá lántakandi sem varð fyrir tjóni vegna gengisbreytinga fái það tjón bætt úr hendi lánveitanda. Ef ábyrgðarmenn hafa greitt lán munu kröfur þeirra ganga fyrir öðrum kröfum. Álagning dráttarvaxta eða vanskilagjalda við uppgjör verður í öllum tilvikum óheimil.

Verði frumvarpið að lögum gefst lántakendum færi á að halda láninu í erlendri mynt, kjósi þeir svo. Lántakendum með fasteignaveðlán býðst jafnframt að breyta lánum sínum yfir í verðtryggð kjör. Réttur lántakenda til að láta á mál sitt reyna fyrir dómstólum er ekki skertur.

Unnið er að því að ljúka við einstök útfærsluatriði í frumvarpinu og beðið er skaðleysisyfirlýsinga frá fjármálastofnunum, sem tryggi að ekki verði beint kröfum á hendur ríkinu vegna löggjafarinnar. Vonir standa til að slíkar skaðleysisyfirlýsingar liggi fyrir af hálfu fjármálastofnana í næstu viku. Gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir frumvarpinu um leið og Alþingi kemur saman að nýju 4. nóvember nk.“

Helstu atriði listuð

Í fréttatilkynningu eru helstu atriði frumvarpsins listuð. Þau eru:

· Í ljósi dóms Hæstaréttar frá 16. júní sl. sem staðfesti ólögmæti gengisbundins láns til bílakaupa og dóms Hæstaréttar frá 16. september þess efnis að reikna beri vexti ólögmæts gengisbundins láns með hliðsjón af lægstu óverðtryggðu vöxtum sem Seðlabanki Íslands auglýsir, taldi efnahags- og viðskiptaráðherra tilefni til lagasetningar með það að markmiði að greiða fyrir málum og tryggja sanngirni. Dómarnir ná einungis til einstakra gerða lánasamninga og því óvíst með fordæmisgildi. Þúsundir mála verða leidd fyrir dómstóla ef ekki er tekið á málinu með skýrri löggjöf.

· Kveðið er á um að gengisbundin fasteignaveðlán einstaklinga og svokölluð bílalán verði talin falla í sama flokk óháð orðalagi samninga þeirra. Allir lántakendur fá því lækkun eftirstöðva sinna til samræmis við dóm Hæstaréttar frá 16. september sl.

· Heimilt verður án álags eða vanefndaafleiðinga að greiða upp skuld af ólögmætu gengisbundnu láni.

· Regla um uppgjör stuðlar að því að allar greiðslur af láni gangi inn á vexti og höfuðstól skuldarinnar og að ekki verði heimilað að reikna dráttarvexti eða önnur vanskilaálög af slíkum kröfum við uppgjör.

· Í þeim tilfellum sem eigendaskipti hafa orðið og fleiri en einn lántakandi kemur að málinu er miðað við að sá lántakandi sem orðið hefur fyrir tjóni fái það bætt beint úr hendi viðkomandi lánveitanda. Með þeim hætti er hagur fyrri lántakenda tryggður eftir því sem unnt er.

· Ef ábyrgðarmenn hafa greitt af lánum ganga kröfur þeirra fyrir öðrum kröfum.

· Lögð er til regla um uppgjör ágreiningsmála ef áhöld eru um hver eigi rétt til endurgreiðslu eða uppgjörs.

· Lánastofnunum er settur tímafrestur vegna uppgjörs og útreikninga á ólögmætum gengisbundnum lánum. Fresturinn er 30 dagar að hámarki, en 60 dagar ef eigendaskipti hafa orðið.

· Lántakendur hafa tímabundna heimild til að breyta lánum sínum yfir í gild erlend lán, kjósi þeir svo. Fellur þá niður réttur til sérstakrar leiðréttinga á láninu.

· Lántakendum fasteignaveðlána býðst jafnframt að breyta láni sínu yfir í verðtryggð kjör.

· Vikið verður frá almennum tímafrestum til endurupptöku dómsmála hvað varðar gengisbundin lán. Enginn réttur er tekinn af lántakanda til að láta á mál sitt reyna fyrir dómstólum.

· Aðilum í atvinnurekstri verður heimilað að taka gengisbundin lán. Við endurgreiðslur til lögaðila er kröfuhafa heimilt að taka tillit til allra lánaviðskipta þeirra í milli og draga frá þann ávinning sem lögaðili kann að hafa haft vegna ólögmætis gengisbundins láns.