Sænska Kauphöllin, Nasdaq Stockholm, skráði á þriðjudag á markað skírteini sem nefnd eru Bitcoin Tracker One . Verðgildi þeirra er bundið við gengi bitcoin gagnvart Bandaríkjadal. Útgefandi skírteinanna heitir XBT Provider, sem er félag í sænsku KnC Group samstæð- unni. KnC framleiðir meðal annars bitcoin-námuvélar, sem eru til dæmis notaðar í gagnaveri Verne Global í Reykjanesbæ.

Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland, segir að skírteini á borð við Bitcoin Tracker One séu algeng í kauphöllum víða um heim, en þekkist þó ekki hér á landi. Um er að ræða svonefnd „Exhange Traded Products,“ sem séu skráð á sérstaka markaði innan kauphalla. Verðmæti þeirra miðast gjarnan við hrávörur, gengi gjaldmiðla, verð hlutabréfa eða vaxtastig. Í tilfelli Bitcoin Tracker One miðast verðgildið við bitcoin.

„Þetta er gert til að draga úr viðskiptakostnaði og fyrirhöfn við fjárfestingar. Þá liggja fyrir verð og hægt að fjárfesta á opinn og gagnsæjan hátt,“ segir Páll.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .