Fiskveiðinefnd Evrópuþingsins hyggst ræða mögulegar viðskiptaþvinganir gegn Íslandi og Grænlandi vegna þess sem þeir kalla einhliða töku á makríl að því er Morgunblaðið greinir frá.

Sambærilegar veiðar Rússa eru þó ekki nefndar. Kristján Freyr Helgason formaður samninganefndar Íslands um deilistofna strandríkja við norðanvert Atlantshaf segir íslensk stjórnvöld hafa boðið formanni nefndarinnar til landsins til að heyra hlið Íslands.

„Þeir geta lokað höfnum fyrir okkur og reynt að loka mörkuðum og eitthvað fleira,“ sagði Kristján Freyr, en ESB er óánægt með ákvarðanir ríkjana um að auka við makrílkvóta sinn síðustu ár eftir að stofnarnir fóru að ganga í auknum mæli í lögsögu ríkjanna.

ESB, Færeyjar og Noregur tóku sig saman árið 2014 og ákváðu að aðrar þjóðir gætu einungis fengið 15,6% heildarkvótans. Ákváðu þeir svo í haust að lækka heildaraflann milli ára um hámark aflareglu eða um fimmtung og því miða þjóðirnar við 653 þúsund tonna afla. Þar af áttu s.s. aðrar þjóðir því að fá 100 þúsund tonn.

Tók sú ákvörðun mið af ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknarráðsins, ICES, sem gaf upp 318 þúsund tonna veiði í október, þó Kristján Freyr segi að vitað væri að sú tala væri ekki gallalaus og þyrfti að endurskoða.

Sem var og gert í byrjun maí og þá miðaðist nýja ráðgjöfin við 770 þúsund tonna heildarafla. Makrílbandalag ríkjanna þriggja ákvað fyrst að halda sig við fyrri ákvörðun en síðan klofnaði það í afstöðu til heildarveiðanna.

Íslendingar ákváðu hins vegar að auka veiði sína úr 107 þúsund tonnum miðað við fyrri ráðgjöf í 140 þúsund tonn, eða 16,5% af áætlaðri heildarveiði allra ríkjanna, eftir að nýja ráðgjöfin kom fram. Skömmu síðar gerðu Grænlendingar og Rússar það sama.

Hafa íslensk stjórnvöld fengið síðan bréf frá framkvæmdastjórn ESB þar sem því var hótað að skoða að beita viðskiptaþvingunum vegna ákvörðunarinnar.