Samkvæmt bráðabirgðatölum um innheimtu virðisaukaskatts nam vöruinnflutningur án skipa og flugvéla 19,5 milljörðum króna í febrúar. Þetta er gífurlegur innflutningur ef rétt reynist, eða 45% meiri að raunvirði en í febrúarmánuði í fyrra. Ef þriggja mánaða meðaltöl eru borin saman milli ára er vöxturinn rúmlega fjórðungur sem er meiri aukning en sést hefur við samskonar samanburð undanfarin fimm ár.

Ef bráðabirgðatölur um vöruinnflutning í febrúar eru lagðar við innflutning í janúar er verðmæti innflutnings í ár um fjórðungi meiri en á sama tímabili í fyrra að raungildi. Meginskýring þessarar aukningar er innflutningur flutningatækja, bæði einkabíla og farartækja til atvinnurekstrar (ekki þó skip og flugvélar) og neysluvöru, einkum svo kallaðs hálf-varanlegs neysluvarnings en þar undir flokkast til dæmis fatnaður. Þriðja meginskýringin er mikill innflutningur á eldsneyti og smurolíum sem að miklu leyti skýrist af hækkun eldsneytisverðs frá sama tímabili í fyrra segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Vöruskiptajöfnuður var óhagstæður um rúma 3 milljarða króna í janúar og ef fer fram sem horfir má gera ráð fyrir að niðurstaða febrúarmánaðar verði
svipuð. Vöruskiptajöfnuður fyrstu tvo mánuðina í fyrra var aftur á móti jákvæður um 436 milljarða króna og fór ekki að snúa til verri vegar fyrr en í
apríl 2004. Útflutningur sjávarafurða var óvenju lítill í janúar. Sterk króna
spilar þar inn í en hún var rúmlega 7% sterkari í janúar en í sama mánuði í
fyrra miðað við gengisskráningarvog. Aftur á móti aflaðist ágætlega í janúar
og bráðabirgðatölur um afla í febrúar benda til þess sama. Verðvísitala sjávarafurða í íslenskum krónum í janúar er örlítið hærri en í janúarmánuði í fyrra, þrátt fyrir hærra gengi en verð afurða í erlendum myntum hækkaði þegar líða tók á síðasta ár. Af framansögðu má álykta að útflutningur sjávarafurða verði allmiklu meiri í febrúar en í janúarmánuði og halli á vöruskiptum gæti því orðið svipaður milli mánaða þrátt fyrir óvenju mikinn innflutning í febrúar.