Gistinætur á hótelum í apríl voru ríflega 292 þúsund sem er 25% fjölgun miðað við sama tíma fyrir ári. Gistinætur erlendra gesta voru 84% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 26% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum íslenskra gesta fjölgaði um 21%. Þetta kemur fram í tölum Hagstofu Íslands.

Flestar gistinætur á hótelum í apríl voru á höfuðborgarsvæðinu eða tæplega 182 þúsund sem er 16% miðað við árið áður. Alls voru 62% allra gistinátta á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar gistinætur voru á Suðurlandi eða um 55 þúsund. Þeir erlendu gestir sem voru með flestar gistinætur í mánuðinum voru Bandaríkjamenn með tæplega 62 þúsund gistinætur, Bretar með 52,5 þúsund gistinætur og Þjóðverjar með 22 þúsund. Íslenskar gistinætur voru 45,5 þúsund.

Ef litið er til tólf mánaða tímabili frá maí 2016 til apríl 2017 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum alls ríflega 4,1 milljón sem er 32% aukning ef tekið er mið á sama tímabili ári áður og skýrist af gífurlegri aukningu í komu ferðamanna til landsins.