Stjórnvöld geta ekki gert ráð fyrir því að lánshæfismat landsins verði fært upp úr ruslflokki þrátt fyrir að dregið hafi úr líkum þess að landið lendi í greiðsluþroti. Meiri líkur eru nú á því að evrusvæðið lendi í greiðslufalli en Ísland, að sögn Paul Rawkins, sérfræðings hjá alþjóðlega matsfyrirtækinu Fitch.

Hann segir að lækka verði skuldir einkageirans og afnema gjaldeyrishöft áður en mögulegt verður að koma landinu upp í annan flokk.

Fitch er eina matsfyrirtækið sem hefur fært lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs í ruslflokk.

Á Bloomberg-fréttaveitunni í dag kemur fram að verð á skuldatryggingar evrulandanna sé meira en tvöfalt hærri en skuldatryggingar á ríkissjóð. Hér sé önnur staða en ytra, efnahagslífið sé að taka hraðar við sér, hratt dragi úr halla á ríkissrekstri og atvinnuleysi minna en að meðaltali á evrusvæðinu.

„Lánshæfiseinkunnir miðast ekki við verð á skuldatryggingum,“ segir Rawkins í samtali við Bloomberg og bendir á að í næstu endurskoðun á lánshæfismati landsins séu meiri líkur á að horfur verði færðar upp jákvæðar en að landið verði fært upp um flokk.

Rawkins tekur undir með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, skuldir einkageirans séu enn of miklar og sé mikilvægt að stjórnvöld beiti sér fyrir því að ljúka endurskipulagningu þeirra. Hann bendir sömuleiðis á að Seðlabankinn hafi hægt og bítandi létt á gjaldeyrishöftum. Hins vegar sé ekki útlit fyrir að sjái fyrir endann á þeim fyrr en eftir tvö ár. Búast megi við því að lánshæfismat ríkissjóðs verði endurskoðað um svipað leyti.