Gilhagi ehf, félag glæpasagnahöfundarins Arnaldar Indriðasonar, skilaði hagnaði upp á rúmar 139 milljónir króna á síðasta ári, samkvæmt nýbirtum ársreikningi. Þetta er 23 milljónum krónum meiri hagnaður en árið 2011.

Fram kemur í ársreikningnum að rekstrarhagnaður fyrir afskriftir nam 142,3 milljónum króna samanborið við tæplega 133,7 milljónir króna árið 2011. Af innkomunni fyrir ritstörfin greiddi félag Arnaldar rúmar 34,6 milljónir króna í tekjuskatt árið 2012. Árið áður nam tekjuskatturinn 29 milljónum króna.

Fyrsta bók Arnaldar, Synir duftsins, kom út árið 1997 og hefur hann komið með nýja bók á hverju ári síðan þá. Bækurnar hafa verið þýddar á fjölda tungumála og selst í milljónum eintaka. Arnaldur stofnaði félagið Gilhaga utan um ritstörfin árið 2003. Hagnaðurinn nam sjö milljónum króna fyrst árið.

Situr á rúmum 420 milljónum

Fastafjármunir Gilhaga ehf námu um síðustu áramót átta milljónum króna samanborið við tvær milljónir undir lok árs 2011. Veltufjármunir eru talsverðir samkvæmt ársreikningi Gilhaga eða upp á tæpa 471,5 milljónir króna í fyrra borið saman við 351,6 milljónir árið 2011. Félagið á verðbréf fyrir 96,7 milljónir og tæplega 373,5 milljónir króna af handbæru fé. Eignir nema samkvæmt ársreikningnum rúmum 479,5 milljónum króna.

Eigið fé Gilhaga nemur rúmum 425 milljónum króna. Þar munar mestu um óráðstafað eigið fé upp á 424,6 milljónir. Á móti nema skuldir rétt rúmum 54,3 milljónum króna. Þar vegur þyngst tekjuskattur til greiðslu upp á rúmlega 31,4 milljónir króna og skuld félagsins við Arnald upp á 11 milljónir.

Á fimmtudag var tilkynnt að bókin Skuggasund, nýjasta skáldaga Arnaldar, hafi hlotið hin virtu spænsku verðlaun RBA Novela Negra. Þetta er 17. skáldsaga Arnaldar sem væntanleg er í haust.