Glitnir og Bank of Scotland hafa nú hafið sölu á 400 milljón punda (52 milljarðar íslenskra króna) fjármögnunarpakka fyrir bresku stórverslunarkeðjuna House of Fraser á ný, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, en treglega gekk í fyrra að fá fjárfesta á sambankalánmarkaði til að kaupa pappírinn.

Bankarnir sölutryggðu sambankalánið í tengslum við kaup Baugs og fleiri fjárfesta á House of Fraser-keðjunni á síðasta ári fyrir 351 milljón punda. Sala á láninu hófst í september síðastliðnum en fjárfestar héldu að sér höndum, meðal annars vegna þess að ekki var búið formlega að ráða nýjan forstjóra og upplýsingar um jólaverslun félagsins og afkomu á fjórða ársfjórðungi voru ekki fáanlegar.

Glitnir og Bank of Scotland kynntu fyrirtækið og fjármögnunina fyrir fjárfestum á kynningu í London í gær. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að meirihluti lánsins hafi þegar verið seldur til annarra banka og góðar afkomutölur á fjórða ársfjórðungi og jólaverslun hafi gert bönkunum kleift að minnka þóknunargreiðslur til þeirra banka sem hafa ekki þegar skráð sig fyrir hlutum af láninu.

Baugur og fleiri fjárfestar, þar á meðal fjárfestingafélagið Fons, keyptu Iceland-verslunarkeðjuna í Bretlandi fyrir nokkrum árum. Yfirtakan var skuldsett og sölutryggði Landsbanki Íslands sambankalán til að fjármagna yfirtökuna. Félagið hefur verið endurfjármagnað einu sinni og greiddu hluthafarnir sér rúmlega sjö milljarða króna í arð í kjölfarið. Landsbanki Íslands hefur nú samþykkt að endurfjármagna félagið öðru sinni. Viðskiptablaðið greindi frá því í fyrra að seinni arðgreiðslan myndi nema um 19 milljörðum króna, en nú er búist við að upphæðin verði jafnvel enn hærri.

Sérfræðingar á sambankalánamarkaði benda á að Baugur og meðfjárfestar geti einnig náð að greiða sér veglegar arðgreiðslur með því að endurfjármagna House of Fraser, jafnvel á næsta ári, ef rekstur félagsins verður í takt við væntingar nýju eigendanna. Það mun hins vegar fara eftir því hve hratt félagið greiðir niður lánin sem hvíla á því vegna yfirtökunnar.

Auk Baugs, inniheldur House of Fraser-fjárfestahópurinn FL Group, skoska auðkýfinginn Sir Tom Hunter, Kevin Stanford, Bank of Scotland, Don McCarthy og Stefan Cassar.