Greiningardeild Glitnis lækkað verðbólguspá sína og gerir nú ráð fyrir 1,8% verðbólgu á næsta ári, samanborið við fyrr spá um 3,2% verðbólgu árið 2007.

"Óvissan í spá okkar vegur þó töluvert meira til hækkunar fremur en til lækkunar, segir greiningardeildin.

"Fyrirhugaðar aðgerðir stjórnvalda til að lækka matvöruverð munu valda því að mæld verðbólga minnkar snarlega á fyrri hluta næsta árs. Stjórnvöld hafa greint frá því að áætluð áhrif aðgerðanna verði til 2,7% lækkunar vísitölu neysluverðs og í spá okkar er gert ráð fyrir að sú verði raunin. Líkur verða hins vegar að teljast á því að stjórnvöld hafi ofmetið áhrif fyrirhugaðra aðgerða og verðbólgan sem framundan er sé því vanmetin,"

Glitnir gerir einnig ráð fyrir lækkun á íbúðaverð en segir að líkurnar á slíkri lækkun virðast þó fara minnkandi um þessar mundir í ljósi vilja stjórnvalda til að bjóða aftur 90% lán á vegum Íbúðalánasjóðs, miða lánshlutfall við kaupverð í stað brunabótamats og hækka hámarkslánið.

"Einnig virðist draga hægar úr þenslu í efnahagslífinu um þessar mundir en áður var talið og styður það við eftirspurnarhliðina á íbúðamarkaðinum. Ljóst er því að óvissan í verðbólguspá okkar vegur meira til hækkunar spárinnar," segir greiningardeild Glitnis.

Greiningardeildir bankanna hafa birt nýjar verðbólguspár á síðustu dögum í kjölfar þess að kynntar voru fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Spárnar gera ráð fyrir 0% til 2,4% verðbólgu yfir næsta ár.

"Teljum við litlar líkur á að lægsta spáin gangi eftir en að sjálfsögðu mestar líkur á að okkar spá gangi eftir. Einnig teljum við þokkalegar líkur á að hæsta spáin gangi eftir og verðbólgan gæti raunar hæglega orðið umtalsvert meiri en sú spá gefur til kynna. Stærsti óvissuþáttur í verðbólguspánni er sem fyrr gengisþróun krónunnar, en hún ræðst að stórum hluta af áhættufælni alþjóðlegra spákaupmanna, vaxtastiginu og þenslu í hagkerfinu," segir greiningardeildin.