Síðastliðinn föstudag, 1. júní, veitti Glitnir tíu framúrskarandi nemendum námsstyrki að heildarupphæð 3,4 milljónir króna en vel á fimmta hundrað umsóknir bárust að þessu sinni. Þetta kemur fram í frétt frá bankanumþ

Veittir voru fjórir styrkir að upphæð 500 þúsund krónum hver til framhaldsnáms á háskólastigi, fjórir styrkir að upphæð 300 þúsund krónur hver til háskólanáms og loks tveir styrkir að upphæð 100 þúsund krónur hvor til framhaldsskólanáms.

Dómnefnd skipuðu: Svafa Grönfeldt rektor Háskólans í Reykjavík, Ingjaldur Hannibalsson prófessor, formaður viðskiptaskorar og varadeildarforseti Viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands, og Hafsteinn Bragason mannauðsstjóri Glitnis en hann var jafnframt formaður dómnefndar.

Styrkhafar í ár voru:
Áslaug Ósk Hinriksdóttir nemi við Menntaskólann í Kópavogi
Frank Arthur Blöndahl Cassata tölvunarfræðinemi við Háskólann í Reykjavík
Guðný Jónasdóttir sem mun hefja nám við Musikhochschule Lübeck í haust
Hallfríður Kristjánsdóttir sem mun hefja nám í Carrol School of Management í Boston College í haust
Henning Arnór Úlfarsson doktorsnemi í hreinni stærðfræði við Brown University
Hildur Æsa Oddsdóttir vélaverkfræðinemi við Háskóla Íslands
Páll Rafnar Þorsteinsson doktorsnemi í stjórnmála- og réttarheimspeki við Cambridge University
Steingrímur Páll Þórðarson nemi við Menntaskólann á Akureyri
Steinn Steingrímsson læknisfræðinemi við Háskóla Íslands
Tinna Jökulsdóttir doktorsnemi við jarðeðlisfræðideild Háskólans í Chicago


Í umsögn dómnefndar segir: Við valið hafði dómnefnd til hliðsjónar þætti eins og dugnað í íþróttum og listum, þátttöku í félagsmálum, vel framsetta umsókn og andstreymi í persónulegu lífi. Námsstyrkshafar Glitnis í ár eru metnaðarfullir einstaklingar með skýra sýn á framtíðina, námsmenn sem svo sannarlega munu efla og auðga íslenska menningu, vísindi og samfélagið í heild.

Lárus Welding forstjóri Glitnis sagði við afhendinguna: ?Við eigum mikið af framúrskarandi fólki sem leggur stund á nám hérlendis sem erlendis og það er nauðsynlegt fyrir íslenskt samfélag að styðja vel við bakið á þessum einstaklingum. Við hjá Glitni lítum ekki einungis á það sem samfélagslega skyldu okkar að styrkja þetta kraftmikla fólk heldur er þetta einnig tækifæri fyrir okkur að styðja fólk sem ef til vill mun verða starfsfólk okkar í framtíðinni.?


Nánari upplýsingar um styrkhafa Glitnis 2007:

Styrkir til framhaldsskólanáms kr. 100.000 hvor

Steingrímur Páll Þórðarson
Steingrímur er nemandi á málabraut við Menntaskólann á Akureyri. Hann hefur náð góðum árangri í sínu námi og er virkur í félagslífi skólans.

Áslaug Ósk Hinriksdóttir,
Áslaug Ósk er nemandi í tölvu- og skrifstofunámi við Menntaskólann í Kópavogi. Hún hefur lengi átt sér þann draum að mennta sig en vegna langvarandi veikinda barns hefur hún þurft að fresta námi um nokkur ár. Með þessum styrk vill Glitnir veita henni stuðning og hvatningu í vegferð hennar til frekari mennta.

Styrkir til háskólanáms kr. 300.000 hver

Guðný Jónasdóttir
Guðný er að hefja nám við Musikhochschule Lübeck með sellóleik sem aðalfag. Hún hefur nú þegar vakið mikla athygli fyrir hæfileika sína og samkvæmt Gunnari Kvaran sellóleikara er Guðný einn efnilegasti hljóðfæraleikari landsins.

Frank Arthur Blöndahl Cassata
Frank Arthur lýkur námi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík nú í sumar. Hann hefur ætíð haft mikinn áhuga á tungumálum og hefur m.a. unnið rannsóknarverkefni á því hvort hægt sé að beita vélrænum aðferðum til að búa til samheitaorðabækur fyrir íslensku á sjálfvirkan hátt. Frank mun hefja meistaranám við Háskólann í Reykjavík í tungutækni í haust.

Steinn Steingrímsson
Steinn stundar nám í læknisfræði við Háskóla Íslands og eru námslok áformuð 2009. Því næst stefnir Steinn á framhaldsnám í skurðlækningum. Hann vinnur nú að rannsókn á tíðni sýkinga í skurðsári eftir opnar hjartaskurðaðgerðir á Íslandi á árunum 1997-2004.

Hildur Æsa Oddsdóttir
Hildur Æsa klárar vélaverkfræði við Háskóla Íslands nú í vor og stefnir að því að klára BS í stærðfræði á næsta ári. Eftir það hyggur Hildur Æsa á meistara- og doktorsnám í hagnýtri stærðfræði.
Styrkir til framhaldsnáms á háskólastigi kr. 500.000 hver

Hallfríður Kristjánsdóttir
Hallfríður hefur fengið inngöngu í meistaranám í fjármálum við Carroll School of Management í Boston College í Bandaríkjunum. Hallfríður útskrifaðist úr Háskólanum í Reykjavík, viðskiptadeild með meðaleinkunnina 9,2.

Henning Arnór Úlfarsson
Henning Arnór stundar doktorsnámi í hreinni stærðfræði við Brown University í Bandaríkjunum sem hann áætlar að klára 2009. Henning hefur sýnt afburðaárangur í námi á öllum skólastigum.

Tinna Jökulsdóttir
Tinna útskrifaðist frá Eðlis og jarðeðlisfræðideild Háskólans Íslands 2003. Hún er nú doktorsnemi við jarðeðlisfræðideild Háskólans í Chicago. Hún er á þriðja ári og beinast rannsóknir hennar að áhrifum koltvísýrings í andrúmslofti á jarð- og lífefnaferla í sjónum og þeim veðurfarsbreytingum sem áhrifin valda.

Páll Rafnar Þorsteinsson
Páll Rafnar stundar doktorsnám við Háskólann í Cambridge, í stjórnmála- og réttarheimspeki. Páll Rafnar er að skoða hvort réttarheimspeki Aristótelesar geti reynst viðlíka frjór jarðvegur fyrir fræðilega nýsköpun í nútímanum og hugmyndir hans um siðfræði og stjórnmál hafa verið á síðustu árum.