Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur nam 4,1 milljarði króna á síðasta ársfjórðungi og rekstrartekjur 11,6 milljörðum. Á fyrstu 9 mánuðum ársins nemur hagnaðurinn nú 14,4 milljörðum og tekjurnar 37,7 milljörðum. Tekjurnar jukust um 8% milli ára og hagnaðurinn um tæpan þriðjung.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að 6% lægri rekstrarkostnaður og auknar tekjur vegna hækkandi álverðs séu meðal skýringa bættrar afkomu milli ára. Nánar tiltekið lækka útgjöld vegna raforkukaupa og flutnings rafmagns auk launakostnaðar lítillega á milli ára, en annar rekstrarkostnaður dregst saman um tæpan fimmtung.

„Í þessu uppgjöri sjáum við enn á ný að sterk tök á rekstrarkostnaði í samstæðunni eru lykillinn að því að hagstæðar ytri aðstæður skili sér í góðri heildarniðurstöðu árshlutareiknings. Ef við lítum fram hjá reiknuðum stærðum í uppgjörinu þá væri rekstrarafkoman jákvæð um sex milljarða króna. Það er eðlilegur afrakstur af því fé sem eigendur hafa bundið í starfseminni.

Vegna þessa árangurs í rekstrinum getum við haldið áfram að bjóða þjónustuna á tiltölulega lágu verði. Nýlega lækkuðu tengigjöld Veitna og nú liggur fyrir að raunlækkun verður á kalda vatninu með því að vatnsgjald heimila verður óbreytt á næsta ári. Um leið leyfir traust fjárhagsstaða okkur að tryggja gæði þjónustunnar, þróun og uppbyggingu. Aukin sjálfvirkni, meiri áreiðanleiki og að okkar mikilvægu veitukerfi standist loftslagsbreytingar eru lykilþættir svo að grunnþjónusta okkar standi fólki framtíðarinnar líka til boða á sanngjörnu verði,“ er haft eftir Bjarna Bjarnasyni forstjóra OR í tilkynningunni.