Lítil og meðalstór fyrirtæki eru driffjöður íslensks hagkerfis, að því er kemur fram í nýrri skýrslu Reykjavik Economics sem unnin var fyrir Íslandsbanka. Í skýrslunni, sem ber heitið Upp úr öldudalnum, er sérstaklega horft til áhrifa kórónuveirufaraldursins á fyrirtækin, stöðu þeirra og framlag til hagkerfisins. Greiningin er unnin út frá upplýsingum úr ársreikningum, sem fengnar voru frá Skattinum, um 20 þúsund fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu sem árið 2021 féllu undir skilgreiningu Reykjavik Economics á litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Samkvæmt skilgreiningunni eru fyrirtæki sem velta 100 til 500 milljónum króna á ári meðalstór og fyrirtæki sem velta 25-100 milljónum króna lítil. Þessi 20 þúsund litlu og meðalstóru fyrirtæki eru tæp 60 prósent viðskiptahagkerfisins sem alls taldi um 35 þúsund fyrirtæki árið 2021.

Magnús Árni Skúlason, framkvæmdastjóri Reykjavík Economics og annar skýrsluhöfunda, segir áhugavert hve vel fyrirtækin komu undan COVID-19 árið 2021. Ársreikningar lítilla og meðalstórra fyrirtækja sýni að fyrirtækin hafi náð ásættanlegum rekstrarárangri 2021. „Greiningin okkar sýnir V-laga viðsnúning í rekstri eftir erfiðleika vegna COVID-19 árið 2020. Hagnaðarhlutfall fyrirtækja af rekstrartekjum var um 16,1% árið 2021, að undanskildum heilbrigðisgeiranum. Til samanburðar var hagnaðarhlutfall fyrirtækjanna 5,1% árið 2020. Heilbrigðisgeirinn var undanskilinn þar sem faraldurinn virðist hafa aukið hagnað fyrirtækja í þeim geira.“

Yfir tíma hafi rekstur og efnahagur lítilla og meðalstórra fyrirtækja batnað verulega frá erfiðleikatímabili sem stóð í nokkur á eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna. Um leið komi þó fram í skýrslunni að þrátt fyrir að hagur fyrirtækja sé nokkuð góður á Íslandi hafi óveðurskýin hlaðist upp og fall bandaríska bankans Silicon Valley Bank hafi dregið dilk á eftir sér. Þá hafi vextir og fjármögnunarkjör farið versnandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.