Sérfræðingar Goldman Sachs telja að stýrivextir í Bandaríkjunum verði komnir niður í 2% í apríl, en þeir eru 3% í dag. Þeir gera ráð fyrir að vextir verði lækkaðir um 50 punkta á næstu tveimur vaxtaákvörðunarfundum bandaríska seðlabankans.

Fram kemur í frétta Dow Jones-fréttaveitunnar í dag að bankinn hafi sent út greiningu til viðskiptavina sinna um helgina þar sem að ýjað er að því að Ben Bernanke, seðlabankastjóri grípi til óvæntra vaxtalækkana í dag, ekki síst vegna hagvísa um veika stöðu á bandaríska atvinnumarkaðnum.

Næsti vaxtarákvörðunarfundur  verður haldinn þann 18. mars. Dow Jones hefur eftir talsmanni Goldman Sachs að þrátt fyrir að bankinn útilokaði ekki óvænta vaxtalækkun sé ljóst að líkurnar á slíku minnka eftir því sem nær dregur næsta formlega vaxtarákvörðunarfundi.