Stjórnendur bandaríska netleitarrisans Google eru sagðir hafa átt í viðræðum við að minnsta kosti tvo fjárfestingasjóði um fjármögnun kaupa á keppinautinum Yahoo. Viðræðurnar eru á byrjunarstigi, samkvæmt heimildum bandaríska dagblaðsins Wall Street Journal.

Blaðið hermir að á sama tíma og tekjur af netauglýsingum hafi aukist um 20% á hverju ári þá hafi stjórnendum Yahoo mistekist að fylgja lestinni og ekki fundið leiðir til að auka tekjur fyrirtækisins. Búist er við að tekjur Yahoo af auglýsingasölu á þessu ári muni nema 1,6 milljörðum dala á þessu ári.

Þótt Google beri höfuð og herðar yfir minni spámenn í netleitargeiranum þá hefur fyrirtækið leitað leiða til að stækka auglýsingasviðið. Wall Street Journal segir kaup Google á Yahoo leið fyrirtækisins til að nema ný lönd á auglýsingamarkaði. Þá megi nota Yahoo til að stækka samfélagsvefinn Google+, sem ætlað er að keppa við Facebook.

Blaðið bendir á að önnur risafyrirtæki hafi verið orðuð við kaup á Yahoo, þar á meðal Microsoft og hafi stjórnendur fyrirtækisins sömuleiðis á í viðræðum við aðra um fjármögnun hugsanlegra kaupa.