Gordon Brown, forsætisráðherra Breta, hefur tjáð Geir H. Haarde að bresk stjórnvöld íhugi nú lögsókn á hendur Íslandi eftir hrun bankanna, sem skilur innistæðueigendur Icesave reikninga Landsbankans eftir í óvissu. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Gordon Brown segir þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að bæta þeim Bretum sem kunna að glata sparifé sínu ekki skaðann sé algjörlega óásættanleg og að stjórnvöld muni gera hvað sem til þarf til að ná í peningana.

„Ég ræddi við íslenska forsætisráðherrann og sagði honum að ég teldi háttsemi Íslendinga ólögmæta. Við erum að frysta þær eignir íslenskra fyrirtækja í Bretlandi sem við getum fryst og munum grípa til frekari aðgerða ef með þarf,“ hefur Guardian eftir Brown.

Bresk stjórnvöld tryggja innistæður einstaklinga á Icesave en allt að 20 sveitarfélög á Bretlandi eiga innistæður á Icesave, sem talið er að nemi um milljarði punda.