Guðfinnur Sölvi Karlsson, sem rekur veitingastaðinn Prikið, ákvað að fjárfesta í tölvuversluninni Macland, árið 2012. Hörður Ágústsson hafði stofnað verslunina ásamt Hermanni Fannari Valgarðssyni í lok árs 2010 en Hermann varð bráðkvaddur nokkrum mánuðum síðar.

Hörður segir að Guðfinnur hafi sent sér sms og lýst yfir áhuga á því að fara samstarf um rekstur á Macland. „Ég hélt að hann væri bara að stríða mér, en svo kemur hann allt í einu í búðina og var þá bara ekkert að grínast. Það var mikið gæfuspor að fá hann með í liðið. Þá var ég búinn að reka þetta í eitt ár, með starfsmenn með mér náttúrlega, en var búinn að taka allar fjárhagslegar ákvarðanir einn og yfirstjórn var alltaf á mínum herðum einum og sér,“ segir Hörður.

Hann segir að Guðfinnur Sölvi, eða Finni eins og hann er jafnan kallaður, sé reynslumikill rekstrarmaður og hafi rekið Prikið í yfir áratug. Hann sé áreiðanlegur maður og þegar búið sé að taka í hönd hans vegna einhvers samkomulags þá standi það. „Hemmi var þannig líka. Þú gast rætt eitthvað við hann, handabandið gilti og stemningin var það sem gilti en ekki eitthvað annað. Markmiðið hjá okkur er ekki að búa til fyrirtæki sem er að fara að moka arði í vasa eigendanna heldur að búa til stöðugt fyrirtæki sem lifir áfram,“ segir Hörður. Fyrirtækið þurfi auðvitað að skila einhverjum arði en það sé ekki forgangsatriði að græða. „Það er nóg að við séum í plús,“ segir Hörður.

Ítarlegt viðtal við Hörð Ágústsson birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .