Eyjan hefur verið í loftinu í rúmt ár, en þrátt fyrir ungan aldur er hún meðal mest lesnu vefsíðna landsins. Að jafnaði heimsækja um 30-40 þúsund manns vefinn vikulega og renna yfir fréttir dagsins eða taka púlsinn á þjóðmálaumræðunni á blogginu sem á Eyjunni er í höndum margra þekktra þjóðfélagsrýnenda.

Hallgrímur Thorsteinsson tók nýverið við ritstjórakyndlinum af Pétri Gunnarssyni, sem ásamt Andrési Jónssyni og Jón Garðari Hreiðarssyni, framkvæmdastjóra Eyjunnar, var aðalhvatamaðurinn að stofnun Eyjunnar. Blaðamaður hitti Hallgrím og Jón Garðar á skrifstofu Eyjunnar í Bankastræti 5 og getur vottað að yfirbyggingin er ekki stórbrotin og ritstjórnin ekki fjölmenn. Aðeins ritstjórinn og framkvæmdastjórinn voru á svæðinu og sátu sinn í hvoru horninu í 50 fermetra opnu vinnusvæði á fjórðu hæð.

„Stefnan frá upphafi var að halda kostnaðinum í lágmarki,” segir Jón Garðar, “og fara ekki of geyst af stað,” bætir hann við. “Við byrjuðum t.d. á því að tryggja okkur nægilegt fjármagn til að standa undir rekstrinum í dágóðan tíma. Það hefur skipt sköpum að hafa haft kostnaðinn að leiðarljósi frá upphafi en þannig höfum við t.d. fundið ódýrar leiðir í rekstrinum. Til að mynda hvílir öll vinnsla á bak við vefinn á frjálsum hugbúnaði (e. open source) og öll uppsetningin fer fram hér innanhúss. Þannig að við erum lausir við kostnað af hugbúnaði og þurfum ekki að kaupa vinnu frá vefhúsum, sem hefur sparað okkur verulegar upphæðir og eykur þá svigrúmið á öðrum sviðum.

Vinnan hefur að mestu leyti hvílt á okkur eigendunum en nú eru stöðugildin ekki nema fjögur,“ segir Jón Garðar, sem er framkvæmdastjóri og einn af fjórum eigendum síðunnar.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .