Langflest félög hafa hækkað í virði í kauphöllinni það sem af er degi, og þar af leiðandi það sem af er árinu 2020, og segja heimildarmenn Viðskiptablaðsins á markaði ástæðuna almenna bjartsýni. Þannig hefur Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkað um 1,70%, í 2.156,96 stig, en heildarviðskiptin það sem af er degi nema um 4,7 milljörðum króna.

Einungis tvö félög hafa lækkað í virði það sem af er degi, það er Eimskip um 0,79%, í mjög litlum viðskiptum þó eða fyrir um 700 þúsund, og fór gengi bréfanna í 188,0 krónur og Arion banki.

Lækkun Arion banka nemur 0,35%, niður í 86,0 krónur, í tæplega 1,2 milljarða viðskiptum, sem markaðsaðilar segja komi mest til vegna viðskipta vísitölusjóða sem framkvæma viðskipti sín nú á fyrsta degi ársins. Tvö félög standa í stað, það er Heimavellir í 1,13 krónum í engum viðskiptum og Origo í 26,45 krónum í rétt um 9 milljóna viðskiptum.

Hagar hækka langmest

Langmesta hækkunin er svo þegar þetta er skrifað á bréfum Haga, eða um 4,34%, í 168 milljóna króna viðskiptum, og er meðaltalsgengið komið í 45,70 krónur. Markaðsaðilar segja að auk bjartsýni fyrir komandi ár hafi áhrif í tilviki Haga að félagið er nú með meira „spread“, eins og það að meira bil er nú á milli kaup- og sölutilboða hjá félaginu, er orðað hjá þeim sem til þekkja.

Icelandair hækkar svo um 3,71%, í 7,83 krónu, í 138 milljóna viðskiptum, en markaðsaðilar benda á að það sé ekki óeðlileg sveifla í bréfum félagsins sem séu mjög sveiflugjörn. Iceland Seafood hækkar um 3,22%, í þó ekki nema 27 milljóna króna viðskiptum, upp í 10,25 krónur.

Eina félagið annað sem er með hækkun yfir 3% er Festi, eða um 3,09%, í 428 milljóna króna viðskiptum. Fór gengi bréfa félagsins upp í 133,50 krónur, og segja markaðsaðilar að bjartsýni sé með félagið og var góður árangur verslana Krónunnar á síðasta ári nefnt sem dæmi um það.

Þess má geta að framkvæmdastjóri Krónunnar, Gréta María Grétarsdóttir, fékk Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar í tímaritinu Áramótum sem nýkomið er út, en í blaðinu er ítarlegt viðtal við hana um félagið og reksturinn sem hún tók við fyrir rúmlega ári síðan.