Í langflestum af fimmtán fjölmennustu sveitarfélögum landsins hafa fasteignagjöld hækkað milli áranna 2012 og 2013, samkvæmt skýrslu sem unnin var af Verðlagseftirliti ASÍ. Í meirihluta tilfella er hækkunin til komin vegna hærra fasteignamats fremur en vegna hækkunar á álagningunni sjálfri. Fasteignagjöld samanstanda af fasteignasköttum, holræsagjaldi, vatnsgjaldi, lóðaleigu og sorphirðugjöldum. Gjöldin eru í flestum tilfellum innheimt sem hlutfall af fasteigna- eða lóðamati en geta einnig verið innheimt með blöndu af föstu gjaldi og fermetragjaldi. Sorphirðugjöld eru þó ávallt innheimt sem fast gjald.

Hvað varðar fasteignaskattinn sjálfan þá er álagningarprósentan sjálf óbreytt í flestum tilfellum. Mest var þó lækkunin í Kópavogi (-9,38%), Árborg (-7,69%) og Hafnarfirði (-6,25%), en fasteignaskattur hækkaði á Seltjarnarnesi (0,48%) og í Fjarðabyggð (4,65%).

Töluverðar hækkanir á fasteignamati

Þó fasteignaskattsprósenta hafi ekki breyst í meirihluta sveitarfélaga breytist fasteignamat í flestum sveitarfélögum milli ára en á höfuðborgarsvæðinu var hækkunin á bilinu 4,48% - 17,11% ef frá er talin Leirvogstunga þar sem fasteignamatið lækkaði. Á landsbyggðinni voru töluverðar sveiflur í fasteignamati þar sem bæði má greina miklar hækkanir (25,48% í Vestmannaeyjum) og miklar lækkanir (7,08% í Fellabæ í Fljótsdalshéraði).

Sé litið til höfuðborgarsvæðisins, hækkaði greiddur fasteignaskattur mest á Seltjarnarnesi eða um 9,85%, og fylgja Reykjavík og Garðabær þar á eftir eða um 8,58% og 7,96%. Í Kópavogi lækkuðu greiddir fasteignaskattar milli ára, þar sem álögð gjöld lækkuðu meira en nemur hækkun fasteignamatsins og var lækkunin um 2,72% að meðaltali.

Hækkanir á holræsa- og sorphirðugjaldi

Hvað varðar holræsagjaldið hélst álagningarprósentan óbreytt hjá 8 sveitarfélögum en hækkar mest í Fjarðarbyggð, en þar á eftir koma Seltjarnarnes og Reykjavík. Sé tekið tillit til þróunar á fasteignamati hækkaði holræsagjald mest í Vestmannaeyjum (25,48% í sérbýli) en á höfuðborgarsvæðinu var hækkunin mest í Hafnarfirði (23,06 í Setbergi) og á Seltjarnarnesi (19,98 í sérbýli). Í Reykjavík hækkuðu holræsagjöld, þar sem hækkun á fastagjaldinu nam 8,52% og á fermetragjaldinu nam 8,8%.

Ólíkt framangreindum gjöldum eru sorphirðu og sorptengd gjöld innheimt sem föst upphæð á hverja íbúð. Hæstu gjöldin eru greidd í Reykjanesbæ og eru 37435 krónur á þessu ári. Sorphirðugjöld lækka í þrem sveitarfélögum og þar af mest í Ísafjarðarbæ (9,98%), Kópavogi (9,87%) og svo í Fjarðabyggð (2,11%). Mestar hækkanir urðu á höfuðborgarsvæðinu, en í Hafnarfirði varð 25,17% hækkun þar sem sorphirðugjald hækkaði úr 19300 kr í 24158 krónur. Einnig urðu töluverðar hækkanir í Reykjavík (15,46%) og Garðabæ (13,14%).