Greining Glitnis gerir ráð fyrir að hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða verði 2% í apríl sem er þá mesta hækkun milli mánaða frá árinu 1989. Hagstofan mun á mánudaginn birta vísitölu neysluverðs (VNV) fyrir apríl.

Gangi spá Greiningar Glitnis eftir mun ársverðbólga mælast 10,2%.

„Í verðbólguspá sem við unnum í byrjun apríl gerðum við ráð fyrir 1,8% hækkun milli mánaða en margt bendir til þess að hækkunin verði meiri og því endurskoðum við spána nú til hækkunar,“ segir í Morgunkorni Glitnis.

Þar segir jafnframt: „Áhrif vegna gengislækkunar krónunnar vega hvað þyngst en búast má við að þyngsti áhrifahluti hennar komi að mestu fram á þremur mánuðum sem leiðir til örrar verðhækkunar bæði á innfluttum vörum og þjónustu þessar vikurnar.

Áhrif vegna gengisbreytinga eru mismunandi fljót að koma fram í verði innfluttrar vöru og þjónustu og fer það aðallega eftir birgðastöðu hverrar tegundar fyrir sig. Til að mynda staldra ávextir aðeins við í skamman tíma á lager ef þeir fara ekki beint í verslanir þegar þeir koma til landsins en veltuhraði með húsgögn er mun minni og sófar eiga því til að staldra lengur við í verslunum áður en þeir fylgja kaupanda heim.

Af þessum sökum er verðnæmni ávaxta við gengisbreytingum mun meiri en verðnæmni húsgagna. Hrávöruverðshækkun hefur einnig áhrif og má nefna verðhækkun mjólkurvöru sem dæmi.

Einnig er innlendur kostnaðarþrýstingur til staðar og áhrif af nýgerðum kjarasamningum stærstu launþegahópa á almennum vinnumarkaði ásamt uppsöfnuðum kostnaðarþrýstingi eru líkleg til að leiða til verðhækkunar á innlendri þjónustu í mánuðinum.“