Telja má líklegt að Seðlabankinn muni leitast við að beina verulegum hluta þeirra fjárfesta sem eiga ríkisvíxla á gjalddaga í næsta mánuði yfir í ríkisbréf. Með hliðsjón af því að erlendir aðilar keyptu ríflega 32 milljarða króna af þeim 40 milljörðum ríkisvíxla sem er á gjalddaga í næsta mánuði má ætla að útgáfa verði töluverð í styttri ríkisbréfaflokkunum í næsta mánuði, og þá sér í lagi á nýjasta ríkisbréfaflokknum, RIKB11.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en Seðlabankinn sendi í morgun út tilkynningu um að ekki yrði um útboð á ríkisbréfum að ræða næstkomandi föstudag, en þá er frátekinn dagur fyrir mánaðarlegt ríkisbréfaútboð.

Í septemberlok var tilkynnt að stefnt yrði að því að auka útgáfu ríkisbréfa um 60 milljarða króna fram að áramótum ef markaðsaðstæður leyfðu.

Eins og áður hefur komið fram var mikil þátttaka í ríkisvíxlaútboði Seðlabankans í gær. Var fjárhæð bæði heildartilboða og þeirra tilboða sem var tekið hærri en verið hefur síðan í júlí síðastliðnum. Í víxlana, sem eru á gjalddaga í febrúar á næsta ári, bárust alls tilboð að fjárhæð tæplega 46 milljarða króna að nafnverði, en tilboðum var tekið fyrir tæplega 33 milljarða að nafnverði. Meðalvextir í útboðinu voru 8,5%, sem er lítilsháttar lækkun frá útboði septembermánaðar.

Sjá nánar í Morgunkorni.