Lækkun íbúðaverðs kemur ekki á óvart í ljósi þeirra efnahagsaðstæðna sem nú ríkja í hagkerfinu og reikna má með að verð íbúða komi til með að gefa enn meira eftir.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en eins og fram kom hér á vb.is í morgun sýna nýjar tölur frá Fasteignaská Íslands að vísitala íbúðaverðs hefur nú náð þriggja ára lágmarki. Hún lækkaði um 1,5% á milli mánaða í nóvember sem er jafnframt mesta lækkun á milli mánaða frá því í apríl.

„Hin mikla uppsveifla undanfarinna ára á íbúðamarkaði hefur orðið til þess að nú þegar ládeyða hefur verið á þessum markaði situr eftir mikill fjöldi óseldra íbúða á framboðshlið markaðarins sem skapar frekari þrýsting til verðlækkunar,“ segir í Morgunkorni.

„Við þetta ástand bætist við mikið og vaxandi atvinnuleysi svo og minnkandi ráðstöfunartekjur heimilanna, þá m.a. vegna þeirra skatthækkana sem fyrirhugaðar eru í byrjun næsta árs. Jafnframt geta væntingar um að íbúðaverð komi til með að lækka meira dregið enn frekar úr eftirspurninni, sér í lagi eftir stærri eignum.“

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í morgun hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 13,5% að nafnvirði frá því að það náði toppi í byrjun síðasta árs en um 35,4% að raunvirði.

Greining Íslandsbanka minnir á að opinberar spár gera ráð fyrir að íbúðaverð muni lækka um 50% að raunvirði frá því að hápunktinum var náð áður en yfirstandandi lægð lýkur á fasteignamarkaði. Samkvæmt því mati sé enn umtalsverð lækkun húsnæðisverðs í pípunum þó að mesta lækkunin sé að öllum líkindum yfirstaðin.