Greining Íslandsbanka væntir þess að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka vexti bankans um 2 prósentustig á vaxtaákvörðunardegi bankans, 4. júní næstkomandi. Fara vextir bankans þá úr 13,0% niður í 11,0%.

„Slík lækkun verður að teljast umtalsverð samkvæmt skilgreiningu Seðlabankans þó svo að ýmsir kunni að telja hana hóflega við núverandi aðstæður í efnahagslífinu,“ segir greiningardeildin í Morgunkorni í morgun.

„Óvissan er í þá átt að lækkunin gæti orðið minni. Líklegt er að nefndin fylgi eftir fyrri yfirlýsingu sinni um að með því að lýsa yfir að á næstunni verði vaxtalækkanirnar hægari.“

Seðlabankinn lækkaði stýrivexti sína um 2,5 prósentustig í byrjun maí en af fundargerðum peningastefnunefndarinnar má lesa að tveir af fimm nefndarmönnum voru á því að lækka vexti meira eða um 3 prósentustig.

Greining Íslandsbanka segir það móta væntingar um frekari lækkun í júní en ýmislegt hafi þó gerst sem kunni að draga úr vilja peningastefnunefndarinnar til að lækka stýrivexti.

Sjá nánar í Morgunkorni Íslandsbanka.