Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á kynningarfundi Seðlabankans um skýrslu um fjármálastöðugleika þann 14.12.12.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á kynningarfundi Seðlabankans um skýrslu um fjármálastöðugleika þann 14.12.12.
© BIG (VB MYND/BIG)

Ekki er loku fyrir það skotið að Már Guðmundsson seðlabankastjóri greini frá hækkun stýrivaxta á næsta vaxtaákvörðunarfundi  í mars

Greiningardeildir Arion banka og Íslandsbanka telja báðar líkur á hækkun stýrivaxta á næsta eða þarnæsta vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans. Þær vísa báðar í fundargerð Peningastefnunefndar bankans sem birt var í gær en þar kemur fram að nefndin telji vaxtahorfur hafa versnað til muna samhliða veikingu krónunnar og áhrifa af nýföllnum gengislánadómi Hæstaréttar. Þá kemur þar fram að meirihluti nefndarmanna, þar á meðal Már Guðmundsson seðlabankastjóri, hafi vilja halda stýrivöxtum óbreyttum en tveir stutt vaxtahækkun.

Ákvörðun Peningastefnunefndarinnar kom greiningaraðillum á óvart en þeir höfðu flestir hverjir búist við 0,25 prósentustiga hækkun vaxta.

Greining Íslandsbanka segir að miðað við það sem fram kemur í fundargerð Peningastefnunefndar þá séu auknar líkur á því að stýrivextir verði hækkaðir á næsta vaxtaákvörðunarfundi 21. mars næstkomandi.

Greiningardeild Arion banka gerir hins vegar ráð fyrir að af því verði á næsta eða þarnæsta fundi. Deildin segir í Markaðspunktum sínum í dag: „Ekki er hægt að líta fram hjá nýföllnum dómi varðandi gengistryggðu lánin. Þrátt fyrir að eflaust sé enn nokkur tími þar til málefni í tengslum við dóminn verða leidd til lykta gætu áhrifin á verðbólguvæntingar komið fyrr fram, sem er þyrnir í augum peningastefnunefndarinnar. Í okkar huga snýst þetta ekki lengur um hvort, heldur hvenær vextir verða hækkaðir.“