Sendinefnd frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gaf í skyn í dag að grísk stjórnvöld muni fá átta milljarða evra að láni í næsta mánuði. Þetta er lítill hluti af 110 milljarða evra björgunarpakka landsins.

Sendinefnd frá Evrópusambandinu, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og evrópska seðlabankanum greindi frá því í tilkynningu í dag að endurskoðun á efnahagsáætlun landsins væri lokið. Þar sagði jafnframt að stjórnvöld hafi stigið mikilvæg skref í niðurskurði á ríkisútgjöldum. Engu að síður var varað við því að grípa þurfi til niðurskurðarhnífsins árin 2013 og 2014 til að ná markmiðum um fjárlagahalla og koma í veg fyrir frekari fyrirgreiðslu til að draga landið upp úr skuldafeninu.

Fréttaveita Bloomberg hefur eftir Evangelos Venizelos, fjármálaráðherra Grikklands, í dag að stjórnvöld muni gera allt til að standa við skuldbindingar sínar gagnart erlendum lánardrottnum, þar á meðal lækka laun opinberra starfsmanna og draga saman seglin, svo sem með því að segja upp þrjátíu þúsund ríkisstarfsmönnum.

Skuldavandi Grikklands verður tekinn fyrir á leiðtogafundi Evrópusambandsríkjanna eftir tæpan hálfan mánuð.