Stelios Stavridis, forstjóri gríska einkavæðingarsjóðsins, sem sér um sölu á ríkisfyrirtækjum og á að koma grísku þjóðarskútunni á réttan kjöl, var rekinn um helgina eftir að upp komst að hann hafi brotið á því sem talist getur boðlegt manni í hans stöðu. Stavridis var staðinn að því að hafa þegið far með einkaþotu gríska skipakóngsins Dimitris Melissandis sem nýverið leiddi hóp fjárfesta sem keypti 33% hlut í gríska ríkisveðmálafyrirtækinu OPAP. Stavridis var á leið í sumarbústað sinn á einni af grísku eyjunum.

AP-fréttastofan hefur upp úr gríska dagblaðinu Proto Thema að Stavridis hafi þegið farið því það hafi gert honum kleift að sleppa morgunflugi til eyjarinnar.

AP-fréttastofan segir ríkisstjórn Grikklands hafa upphaflega stefnt að því að selja ríkiseignir fyrir jafnvirði 50 milljarða evra fyrir lok árs 2015. Það hefur gengið treglegar en í fyrstu var áætlað og hefur markið nú verið sett á að selja eignir fyrir rétt rúmlega helmingi lægri upphæð, 24 milljarða evra, fyrir árið 2020. Nú þegar hafa eignir verið seldar fyrir 2,85 milljarða og er vonast til að talan verði komin upp ú 3,2 milljarða fyrir áramót.