Margt hefur komið í ljós í aðdraganda kosninganna í Þýskalandi. Meðal annars missti fjármálaráðherra Þýskalands út úr sér að hann teldi að Grikkland þyrfti á öðrum björgunarpakka að halda. Þetta kemur fram á vef CNN .

Nú hefur Grikkland aftur borist til tals en í þetta sinn er það kanslari Þýskalands, Angela Merkel, sem segir það hafi verið mistök að hleypa í evrópska myntsamstarfið. Þetta sagði hún á fjöldafundi í dag. Með þessu kenndi hún forvera sínum, Gerhard Schroeder, um evrukrísuna. Hann hefði ekki átt að slaka á mjög ströngum reglum sem voru til þess gerðar að styðja við gjaldmiðilinn.

Þegar Grikkland tók upp evruna árið 2001 jukust útgjöld og lántökur ríkisins. Sem loks leiddi til þess að landið gat ekki með neinu móti greitt skuldir sínar þegar heimskreppan skall á.

Nýjustu kannanir benda til þess að Merkel muni halda áfram sem kanslari, þriðja kjörtímabilið í röð.