Leigufélag í eigu Íbúðalánasjóðs verður stofnað á næstu dögum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en félagið verður sjálfstætt og aðskilið sjóðnum og mun halda utan um leigu á íbúðum sjóðsins. Fyrst um sinn er um að ræða 600-700 íbúðir í eigu sjóðsins sem fara inn í félagið.

„Þetta verður að vera félag sem er stofnað inn í framtíðina. Þetta er ekki til að bjarga Íbúðalánasjóði. Þetta er til að bjarga leigumarkaðinum," segir Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra í samtali við Fréttablaðið. Félagið eigi að vera hluti af framtíðarsýn varðandi eflingu húsaleigumarkaðar. Annar hluti af þeirri hugsun eru húsaleigubætur og efling þeirra.

Félaginu er ekki ætlað að skila hagnaði að sögn Sigurðar Erlingssonar, framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. Í fréttinni kemur fram að unnið sé út frá því að félagið verði stofnað fyrir áramót.