Niðurstöður tilraunaborana kanadíska námufyrirtækisins AEX Gold á Grænlandi árið 2021 voru þær bestu sem fyrirtækið hefur fengið á síðastliðnum sjö árum, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Tilraunaboranirnar fóru fram á svæði í Suður Grænlandi sem kallað er Nalunaq og voru boraðar alls 51 hola. Fannst gull í 27 af þessum holum, sem er langt umfram væntingar fyrirtækisins.

„Niðurstöðurnar úr tilraunaborununum 2021 eru mikið gleðiefni og við höfum náð þeim markmiðum sem að var stefnt. Við erum að ná sífellt betri árangri í að hitta á meginæðina með borunum okkar og nú höfum við fundið enn eitt hágæða vinnslusvæðið,“ er haft eftir Eldi Ólafssyni , forstjóra AEX. Hann segir að til stendur að kynna frekari niðurstöður á næstu mánuðum sem og að kynna framkvæmdaáætlun ársins 2022 fyrir markaðsaðilum.

Hæsta gildið sem mældist var 139 grömm af gulli í hverju tonni af grjóti. Í tilkynningunni segir að í venjulegri neðanjarðarnámu liggur þetta gildi á bilinu 4-6 grömm á hvert tonn. Nalunaq náman er neðanjarðarnáma, en á árunum 2004 til 2013 voru um 360.000 únsur af gulli unnar á þremur vinnslusvæðum.

„Boranir ársins 2021 sýna ekki aðeins fram á að enn er  gríðarlegt gullmagn óunnið í jörðinni, heldur gefa rannsóknir til kynna að hægt verði að grafa á fimm áður óþekktum svæðum með háum gullstyrk í berginu,“ segir í tilkynningunni.

Áætlað magn gulls í meginæðinni í Nalunaq er um 251.000 únsur í styrknum 18,5g/t, en AEX gerir ráð fyrir því að magn gulls í æðinni geti verið allt að tveimur milljónum únsa.

„Gullfundurinn nú rennir enn styrkari stoðum undir aðferðafræði þá sem AEX notar til að leita að gulli í jörðu, svokallað berggangamódel (e. Dolerite Dyke Model). Ekkert er því til fyrirstöðu að AEX geti farið að vinna gull úr jörðu á svæðinu, en öll vinnsluleyfi eru til staðar, sem og stór hluti nauðsynlegra innviða.“

AEX var stofnað árið 2017 með megináherslu á gullleit og -rannsóknir á Grænlandi. Fyrirtækið er með leyfi til að leita að og vinna gull og aðra verðmæta málma í Suður-Grænlandi. Stærsta eign AEX er Nalunaq gullnáman, sem verið er að koma aftur í vinnslu.

Hlutabréf AEX eru skráð í kauphallirnar í Toronto og London, en meðal stærstu hluthafa í félaginu eru íslenskir fjárfestar, þjóðarsjóðir Grænlands og Danmerkur og stærsti lífeyrissjóður Grænlands.