Gylfi Arnbjörnsson, formaður ASÍ telur þá fyrirvara sem fjárlaganefnd Alþingis setti á fyrirhuguð lög um ríkisábyrgð vegna Icesave samkomulagsins vera skynsamlega og unnin hafi verið ágætis vinna við að ná sátt um málið.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Gylfi að með því að fara með málið fyrir dómsstóla hefði allt innistæðutryggingakerfið í Evrópu verið sett í uppnám og það hefði líka bitnað á íslenska fjármálakerfinu.

„Vandamálið við Icesave reikningana er fyrst og fremst það að íslensk stjórnvöld leyfðu þeim að verða til. Hvort sem kerfið var gallað eða ekki þá komu íslensk stjórnvöld ekki í veg fyrir það,“ segir Gylfi en bætir við að nauðsynlegt sé að Evrópusambandið lagi þá ágalla sem kunna að vera á lögum um innistæðutryggingar.

„Við verðum að meta þetta út frá því að það er líka slæmt að vera settir út af sakramentinu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum,“ segir Gylfi.

„Við getum ekki hætt á það að lánamarkaðir lokist, það er einfaldlega ekki valkostur. Burtséð frá því hvort við teljum að það sé illa komið fram við okkur eða ekki þá verður íslensk atvinnulíf að hafa aðgang að fjármagni.“

Gylfi segir að lengi hafi legið ljóst fyrir að ísland myndi skaðast vegna Icesave málsins. Hann segir samninginn sjálfan ekki góðan en það breyti því þó ekki að í vali milli tveggja kosta sér verri kostur að leggja hann til hliðar.

Þá bætir Gylfi því við að Íslendingar eigi, með lengingu lána og endurfjármögnun, að  greiða samninginn á 35 árum en ekki 15.

Aðspurður um áhrif Icesave samkomulagsins á stöðugleikasáttmálann sem nýlega var undirritaður af ASÍ, Samtökum atvinnulífsins og ríkisstjórninni segir Gylfi að samkomulagi hafi ekki bein áhrif á hann. Hins vegar hefði það haft töluverð áhrif ef ekki hefði verið gengið frá samkomulagi um þetta mál.