Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gagnrýnt dreifingu Covid-19 bóluefna í Evrópu og segir hana „óásættanlega hæga“. BBC greinir frá.

Stofnunin segir ástandið í álfunni vera meira áhyggjuefni nú heldur en það hefur verið í nokkra mánuði. Áætlanir um bóluefnadreifingu margra Evrópuþjóða hafa orðið fyrir töfum en á sama tíma hefur fjöldi smita farið vaxandi.

Einungis 10% af þeim 900 milljónum manna sem tilheyra Evrópusvæði WHO hafa fengið a.m.k. einn skammt af bóluefni gegn Covid. Í síðustu viku greindust rúmlega 1,6 milljónir nýrra smita og tilkynnt var um nærri 24 þúsund dauðsföll af völdum veirunnar í löndum sem tilheyra svæðinu.

„Bóluefni eru besta leiðin okkar út úr þessum faraldri [...] Hins vegar er dreifing þessa bóluefna óásættanlega hæg“ og dregur faraldurinn á langinn á Evrópusvæðinu, segir í yfirlýsingu Hans Kluge, umdæmisstjóra WHO í Evrópu.

„Við verðum að hraða ferlinu með því að auka framleiðslu, draga úr hindrinum á framkvæmd bólusetningar, og nota hven einasta skammt sem við eigum núna.“

Kluge segir að á meðan hlutfall bólusettra er lágt þurfi Evrópuþjóðir að innleiða útgöngubönn og aðrar sóttvarnaraðgerðir til að bæta upp fyrir tafir á bóluefnadreifingunni. Einnig varaði hann við því að dreifing bóluefnanna, þrátt fyrir seinaganginn, kunni að gefa stjórnvöldum og almenningi falskt öryggi.

Á Íslandi hafa 49.289 eða um 13,3%, fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefninnu, sé miðað við mannfjöldatölur Hagstofunnar frá 1. janúar 2020. Alls eru 23.698 fullbólusettir hérlendis, samkvæmt covid.is .