Í kynningu hjá Fjármálaeftirlitinu um stöðu lífeyrissjóða 2013 var bent á hallann í lífeyrissjóðum og mögulegar leiðir til að takast á við hann. Þar kom meðal annars fram að hækka mætti efitrlaunaaldur.

Áætlað er að með því að hækka eftirlaunaaldur um tvö ár mætti spara 200 milljarða í kerfinu.

Síðastliðin ár hefur eftirlaunaaldur verið stíghækkandi víðsvegar um Evrópu upp í 67 ár sem er eftirlaunaaldurinn hér á landi. Hins vegar var bent á að eftirlaunaaldur hér hafi verið 67 ár í langan tíma. Á sama tíma hefur lífaldur hér á landi hækkað um fjögur ár og því ástæða til að skoða mögulega hækkun.

Björn Z. Ásgrímsson, sérfræðingur á greiningasviði Fjármálaeftirlitsins benti þó á að um pólitíska ákvörðun væri að ræða.