Veitingakeðjur í Kaliforníu hafa byrjað að segja upp starfsfólki í hagræðingarskyni áður en nýjar launahækkanir taka gildi. Þann 1. apríl munu laun starfsmanna á skyndibitastöðum í Kaliforníu hækka í 20 dali á klukkustund.

Samkvæmt fréttamiðlinum WSJ hafa veitingastaðir í ríkinu þegar greint frá áformum sínum um að segja upp hundruðum starfsmanna.

Michael Ojeda er einn af þeim sem hefur misst vinnuna en hann vann sem sendill hjá Pizza Hut í átta ár. Í desember var honum tilkynnt að Pizza Hut myndi segja honum upp og bauð keðjan honum 400 dali í starfslok ef hann ynni út febrúar.

Þar sem Ojeda þénaði fleiri hundruð dala á viku í þjórfé sem sendill ákvað hann frekar að fara á atvinnuleysisbætur.

Verkalýðsfélög í Bandaríkjunum segja að nýju lögin eigi að hjálpa starfsmönnum í þjónustugeiranum og bæta líf þeirra. Þau segjast vonast til að sjá lögin taka gildi í öðrum ríkjum utan Kaliforníu.

Veitingakeðjur hafa leitað annarra leiða til að spara eins og að loka þegar það er lítið að gera eða bjóða aðeins upp á rétti sem er auðvelt að búa til. „Ég get ekki rukkað 20 dali fyrir Happy Meal-máltíð. Ég er að gera allt sem ég get,“ segir Scott Rodrick, eigandi 18 McDonald‘s veitingastaða í norðurhluta Kaliforníu.