Hlutabréf hækkuðu í Bandaríkjunum í dag í kjölfar vangaveltna um það að leiðtogar Evrópusambandsins muni komast að samkomulagi um helgina um hvernig leysa skuli skuldavanda einstakra ríkja innan sambandsins.

Þó er ekkert fast í  hendi um samkomulagið og bæði Bloomberg fréttaveitan og Reuters hafa í umfjöllunum sínum í dag ítrekað að aðeins sé um óstaðfestar fréttir og vangaveltur að ræða.

Sem fyrr segir urðu þessar vangaveltur þó til þess að hlutabréf tóku nokkuð stökk upp á við í dag. Nasdaq vísitalan hækkaði um 1,1%, S&P 500 vísitalan hækkaði um 1,5% og hefur þá ekki hækkað jafn mikið á einni viku frá því í febrúar á þessu ári og Dow Jones hækkaði um 1,9%.