Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra hafa ekki fengið það staðfest formlega frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að stjórn sjóðsins hafi frestað umfjöllun sinni um Ísland.

Þetta segja aðstoðarmenn þeirra. Jóhanna og Steingrímur muni því ekki tjá sig um málið fyrr en þau hafi fengið frestunina formlega staðfesta.

Ísland var á dagskrá stjórnar sjóðsins 3. ágúst, samkvæmt vef AGS, en í dag var það tekið út af dagskránni. Það þýðir með öðrum orðum að endurskoðun efnahagsáætlunar AGS og stjórnvalda frestast.

Þegar Viðskiptablaðið náði tali af Einari Karli Haraldssyni, aðstoðarmanni forsætisráðherra, á fimmta tímanum í dag tjáði hann blaðamanni að Jóhanna myndi ekki tjá sig um málið fyrr en hún hefði fengið frestunina staðfesta.

Upplýsingafulltrúi fjármálaráðuneytisins, Elías Jón Guðjónsson, skrifaði eftirfarandi til blaðamanns Viðskiptablaðsins þegar óskað var eftir viðtali við Steingrím út af málinu: „AGS hefur enn ekki kynnt okkur þessa niðurstöðu formlega. Steingrímur mun ekki tjá sig um niðurstöðu fyrr en það hefur verið gert."

William Murray, upplýsingafulltrúi hjá AGS skrifstofunni í Washington, sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrr í dag að hann ætti ekki von á því að stjórn sjóðsins fjallaði um Ísland 3. ágúst. Hann sagði sömuleiðis að nýr fundartími hefði ekki verið ákveðinn.