Seðlabankinn Vaxta fundur sept 2010
Seðlabankinn Vaxta fundur sept 2010
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Seðlabanki Íslands keypti í dag evrur af innlendum aðilum, gegn greiðslu í löngum ríkisverðbréfum. Meðal kaupenda ríkisbréfanna voru lífeyrissjóðir, að sögn aðstoðarseðlabankastjóra.

Um er að ræða seinni legg í fyrsta útboði Seðlabankans, sem ráðist er í samkvæmt áætlun um afnám gjaldeyrishafta. Alls bárust tilboð í skuldabréfin að fjárhæð 71,8 milljónir evrur og var tilboðum tekið fyrir 61.740.000 evrur. Ekki var heimilt að bjóða hærra verð en 210 krónur fyrir evru í útboðinu. Þeir sem lögðu fram tilboð sem voru jafnhá útboðsverði fengu 80% af þeirri krónuupphæð sem þeir óskuðu eftir. Aðrir, sem sættu sig við að fá minna en 210 krónur fyrir evru, fengu það sem óskað var eftir fyrir sínar evrur. Að nafnverði seldust 12.965.400.000 kr í verðtryggða ríkisverðbréfaflokknum RIKS 30 0701.

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, segir í samtali við Viðskiptablaðið að ánægja ríki innan bankans um niðurstöður útboðsins og að þær lofi góðu um framhaldið. „Þarna sláum við margar flugur í einu höggi. Markmiðið er að koma óstöðugum eignum í hendur langtímafjárfesta, án þess að ganga á gjaldeyrisforða. Í þessu seinna útboði fáum við til baka þær evrur sem við seldum í fyrra útboði," segir Arnór. Hann segir að í útboðinu í dag hafi bankinn endurheimt rétt rúmlega það sem hann lagði út í fyrra útboðinu, þegar hann keypti aflandskrónur af krónueigendum. Þá notaði bankinn evrur úr gjaldeyrisforða.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá rennur 4/5 af hagnaði sem af hlýst til ríkissjóðs og 1/5 í gjaldeyrisforða Seðlabankans. Er það samkvæmt samkomulagi milli bankans og fjármálaráðuneytisins. Hagnaður bankans nemur um 675 þúsund evrum, sé miðað við 218,9 krónu meðalgengi evur í fyrra útboði. Það jafngildir rúmlega 100 milljónum króna, sé miðað við skráð Seðlabankagengi evrunnar í dag.

Umtalsverður áhugi

Aðspurður um túlkun á niðurstöðunum segir hann að í það minnsta megi sjá að umtalsverður áhugi sé á útboðunum. „Hann er á báðum hliðum þess, sem er jákvætt. Það er auðvitað þannig að fjárfestar beggja megin líta á þetta sem ferli. Við gerum því ráð fyrir að þeir taki þátt í útboðum sem verða ákveðin í framtíðinni." Hann segir að nú verði farið yfir niðurstöðurnar og ákvörðun um næsta útboð tekin í framhaldinu. Ákvörðun um slíkt verði líklegast tekin fljótlega. „Nú er komin reynsla á ferlið og mikil vinna, skjalagerð og annað, er að baki. Það auðveldar að endurtaka leikinn."

Lifeyrissjóðir kaupendur

Í samtali við Viðskiptablaðið vildi Arnór ekki gefa upp hverjir kaupendur ríkisskuldabréfanna eru. Hann segir það þó gefa auga leið að lífeyrissjóðir séu þar á meðal. Þeir hafi óvarða gjaldeyrisáhættu og hafi þörf fyrir fjárfestingu af þessu tagi.