Kanadíska álfyrirtækið Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls sem rekur álverið á Grundartanga, tapaði 31,1 milljón dala, jafnvirði 3,9 milljarða íslenskra króna, á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Til samanburðar hagnaðist fyrirtækið um 65,3 milljónir dala á sama tíma í hittifyrra. Hagnaðurinn dróst saman um helming á milli ára. Hann nam 11,3 milljónum dala í fyrra samanborið við 60 milljónir árið 2010.

Fram kemur í uppgjöri Century Aluminum sem birt var í kvöld að samdrátturinn skýrist m.a. af 7,7 milljóna dala gjaldfærslu vegna breytinga á framkvæmdastjórn fyrirtækisins á öðrum ársfjórðungi og lífeyrisskuldbindingum því tengdu. Þá tók Michael Bless við forstjórastólnum af Logan Kruger síðar á árinu.

Tekjur Century Aluminum jukust lítillega á milli ára. Þær námu 318,2 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra samanborið við 316,9 milljónir árið á undan. Tekjurnar á árinu öllu námu rúmum 1,3 milljörðum dala samanborið við tæpa 1,2 milljarða árið 2010.

Viðræður um álver í Helguvík

Haft er eftir Michael Bless í uppgjörinu að hagstæðir vindar blási á flestum mörkuðum Century Aluminum þótt enn séu viðsjárverðar aðstæður á bæði evrusvæðinu og í Kína. Þá telur hann hækkun á raforkuverði til álvera geta dregið úr samkeppnishæfni fyrirtækisins.

Bless hrósar álverinu á Grundartanga, síðasti fjórðungur hafi þar verið mjög góður í fyrra. Straumrof í álverinu hafi truflað framleiðslu þar fyrir ári en hún komist á skrið eftir því sem leið á árið. Þá fagnar hann ákvörðun gerðardóms í desember í fyrra, sem fól í sér að HS Orku væri skylt að standa við orkusölusamning til álvers í Helguvík með tilheyrandi skilmálum. Viðræður eru í gangi um frekari raforkukaup og önnur mál tengd álverinu, að sögn Bless.