Hagnaður bandaríska fjárfestingarbankans Goldman Sachs nam 1,52 milljörðum dala, jafnvirði rétt rúmra 180 milljarða íslenskra króna, á þriðja ársfjórðungi. Þetta er svipaður hagnaður og á þriðja fjórðungi í fyrra þegar hagnaðurinn nam 1,51 milljarði dala. Tekjur námu 6,72 milljörðum dala sem er nokkuð undir væntingum markaðsaðila sem almennt bjuggust við tekjum upp á 7,35 milljarða dala.

Bloomberg-fréttaveitan segir bankastjórann Lloyd C. Blankfein vinna nú að því að draga úr kostnaði fyrirtækisins með það fyrir augum að bæta tiltrú fjárfesta á fjárfestingarbankanum.

Fréttaveitan segir bankann hafa staðið af sér fjármálakreppuna. Þá hafi gengi hlutabréfa bankans hækkað um 41% í fyrra og um 27% það sem af er ári. Það stendur nú í 157,47 dölum á hlut. Þegar best lét í október árið 2007 stóð það í 247,92 dölum á hlut.