Heimavellir högnuðust um 563,3 milljónum íslenskra króna á þriðja ársfjórðungi, sem er nær sexfalldur hagnaður sama tíma fyrir ári þegar hann nam 100,1 milljón króna.

Samt sem áður drógust leigutekjur félagsins saman um nær 12%, úr 928,2 milljónum króna í 818,8 milljónir kóna, meðan rekstrarkostnaður fjárfestingareigna félagsins jókst um hálft prósent eða úr 223,6 milljónum í 224,7 milljónir.

Helsta breytingin milli ára felst í matsbreytingu fjárfestingareigna, sem fór úr 138,3 milljóna króna hækkun fyrir ári í 671,1 milljón krónur í ár, meðan söluhagnaður fjárfestingareigna dróst saman úr 111,6 milljónum í 84,9 milljónir króna.

Eigið fé félagsins jókst um 3%, úr 18,8 milljörðum króna í 19,4 milljarða meðan skuldirnar drógust saman um 6,5%, úr 38 milljörðum í 35,6 milljarða. Þar með drógust eignirnar saman úr 56,8 milljarða í 54,9 milljarða króna svo eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 33,1% í 35,3%.

Eiga 1700 íbúðir

Ef horft er til fyrstu níu mánaða ársins nam hagnaðurinn litlu meira, eða 566 milljónum króna, en á sama tíma fyrir ári var tap félagsins 36 milljónir króna. Virði fjárfestingareigna félagsins án leigueigna og íbúða í sölumeðferð þann 30. september 2019 var 45.868 milljónir króna.

Á tímabilinu námu leigutekjur félagsins 2.567 milljónum króna, en á sama tíma fyrir ári námu þær 2.761 milljónum króna. Það gerir 7% lækkun milli ára og sagt skýrast af því að íbúðum í eignasafninu fækkar um 11% milli ára. Íbúðir í rekstri þann 30. júní 2019 voru 1.596 talsins og til viðbótar eru 124 íbúðir í sölumeðferð. Alls átti félagið 1.720 íbúðir.

Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og söluhagnað (EBIT) nam 1.544 milljónum króna eða 60,1% af veltu en á sama tíma fyrir ári nam hann 1.654 milljónum króna og 59,9% af veltu. Ef litið er fram hjá einskiptis liðum og áhrifum af innleiðingu IFRS16 reikningsskilastaðals er rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og söluhagnað 60,8% af veltu á fyrstu níu mánuðum 2019.

Félagið seldi eignir fyrir 8.002 milljónir króna á tímabilinu og var söluhagnaður vegna þeirra 275 milljónir króna eða 4,3% yfir bókfærðu virði eigna. Matsbreyting eignasafnsins nam 746 milljónum króna á tímabilinu, en fyrir ári nam matsbreytingin 142 milljónum króna.

Helstu áhrifaþættir á matsbreytingu eru lækkandi grunnvextir í verðmatslíkani til hækkunar en hækkandi fasteignagjöld samhliða hærra fasteignamati til lækkunar. Hrein fjármagnsgjöld eru 1.891 milljónir króna á tímabilinu og lækka um 179 milljónir króna.

Meðalvextirnir 4,12%

Eigið fé þann 30. september 2019 var 19.362 milljónir króna og var eiginfjárhlutfall 35,3%. Innra virði hlutafjár 30. september eru 1,72 kr. per hlut. Vaxtaberandi skuldir voru 31.382 milljónir króna þann 30. september 2019, en fyrir ári námu þær 34.701 milljónum króna.

Vegnir meðalvextir félagsins eru 4,12% á verðtryggðum skuldum, sem nema 75% af langtímaskuldum félagsins.
Tekjur ársins 2019 eru áætlaðar 3.360 milljónir króna sem er hækkun um 60 milljónir frá síðasta uppgjöri. Áætlaðar tekjur ársins 2020 eru óbreyttar frá síðasta uppgjöri og nema 3.000 milljónum króna.

EBITDA framlegð ársins 2019 án einskiptisliða lækkar og er nú áætluð 62%-63% (var 63,5%-64,8%) og 2020 64%-65% (var 66,6%-67,8%).

Félagið gerir ráð fyrir að fjöldi íbúða í árslok 2019 verði 1.700 talsins og í árslok 2020 verði þær 1.400 talsins.
Félagið hóf endurkaup á eigin bréfum þann 2. október 2019 og hefur keypt 14.124.156 hluti af þeim 337.541.932 hlutum sem stendur til að kaupa fram að næsta aðalfundi