Hagnaður fyrirtækisins Aðstoð & öryggi ehf. nam um 9,8 milljónum króna eftir skatta á síðasta ári, samkvæmt ársreikningi félagsins sem nýverið var skilað til ársreikningaskrár. Árið áður nam hagnaðurinn rúmlega 11,2 milljónum.

Aðstoð & öryggi rekur bíla merkta árekstur.is og aðstoðar tryggingafélög og viðskiptavini þeirra þegar umferðaróhöpp verða.

Fram kemur í ársreikningi félagsins að óráðstafað eigið fé um áramót hafi verið um 19,6 milljónir króna og er gerð tillaga að greiðslu 20% arðs. Heildareignir námu tæplega 50 milljónum króna. Hrein sala jókst um 5,5 milljónir milli ára og nam alls 50,5 milljónum á síðasta ári.

Eigandi félagsins og framkvæmdastjóri er Ómar Þorgils Pálmason.