Horn fjárfestingarfélag, sem er í eigu Landsbankans, hagnaðist um ríflega 5,6 milljarða króna í fyrra samkvæmt ársreikningi. Árið 2012 nam hagnaðurinn tæplega 4,2 milljörðum og jókst því um 35% milli ára.

Rekstrargjöld Horns námu 223 milljónum króna samanborið við 507 milljónir árið 2012. Á gjaldahliðinni munar mestu um vaxtagjöld sem voru nánast engin í fyrra en 305 milljónir árið 2012.

Eignir Horns voru metnar á 12,6 milljarða króna um síðustu áramót en 23,3 milljarða árið áður. Skuldir félagsins námu 77 milljónum króna í fyrra en 50 milljónum árið á undan. Eigið fé Horns er 12,5 milljarðar en var 23,3 milljarðar árið 2012.

Í sjóðstreymisyfirliti kemur fram að söluandvirði verðbréfa nam 25,3 milljörðum króna í fyrra samanborið við 11,2 milljarða króna árið 2012.