Hagnaður Íslandsbanka á fjórða ársfjórðungi reyndist 4,6 milljarðar sem er aukning frá 3,9 milljörðum á sama tímabili árið á undan.

Hreinar vaxtatekjur jukust í 8,1 milljarð úr 7,0 milljarði og hreinar þóknanatekjur voru 3,8 milljarðar samanborið 3,2 milljarðar á sama tímabili í fyrra.

Hagnaður af reglulegri starfsemi miðað við 15% eiginfjárþátt 1 dróst þó saman milli ára og fór úr 11,7% úr 12,8% árinu fyrr.

Hagnaður ársins minnkaði

Þegar hagnaður Íslandsbanka fyrir árið í heild er skoðað sést að hann dróst eilítið saman milli ára og fór úr 20,6 milljörðum króna árið 2015 niður í 20,2 milljarða króna árið 2016.

Á árinu var 1,7 milljarða króna einskiptiskostnaður bókaður vegna flutnings í nýjar höfuðstöðvar og vegna skemmda á húsnæði bankans á Kirkjusandi.

„Hagnaður ársins 2016 einkennist af sterkum grunntekjum og lokum sölu eignarhluta Borgunar í Visa Europe, samanborið við háa jákvæða virðisbreytingu útlána árið 2015," segir í fréttatilkynningu frá bankanum um afkomuna.

Arðsemi eigin fjár minnkaði en hreinar vaxtatekjur jukust

Arðsemi eigin fjár minnkaði einnig, úr 10,8% niður í 10,2%. Hagnaður af reglulegri starfsemi dróst einnig saman milli ára og fór úr 16,2 milljarði króna niður í 15,1 milljarð.

Hins vegar jukust hreinar vaxtatekjur um 14% milli ára og fór úr 28,0 milljörðum árið 2015 upp í 31,8 milljarð króna í fyrra, sem og hækkun var á vaxtamun.

Hreinar þóknanatekjur jukust

Jafnframt jukust hreinar þóknanatekjur úr 13,2 milljarði í 13,7 milljarð.

Kostnaðarhlutfall bankans jókst í 56,9% úr 56,2% og heildareignir bankans drógust jafnframt saman og fóru úr 1.068 milljörðum í 1.048 milljarða króna. Lausafé og útlán til viðskiptavina nemur 93% af heildareignum hans.

Á árinu jukust útlán til viðskiptavina um 3,3% í 688 milljarða króna en ný útlán námu 163 milljörðum. Eiginfjárhlutfallið nam 25,2% og lausafjárhlutfallið nam 187% fjármögnunarhlutfallið var 123%.