Hagnaður fasteignafélagsins Regins nam 750 milljónum króna á fyrri hluta ársins. Þetta er 40% meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra þegar hann nam 535 milljónum króna. Þar af nam hagnaður Regins 353 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar var hann 292 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi í fyrra og jókst hann því um tæplega 21% á milli ára. Ef hagnaðurinn er brotinn upp þá jafngilti hann 56 aura hagnaði á hlut nú borið saman við 41 aur í fyrra.

Í uppgjöri Regins kemur fram að rekstrartekjur námu 2.181 milljón króna á fyrri hlusta ársins borið saman við 1.907 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum síðasta árs. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar nam 1.321 milljónum borið saman við 1.157 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Þá segir í uppgjörinu að bókfært virði fjárfestingareigna félagsins í lok tímabils nam 51.474 milljónum króna. Matsbreyting á tímabilinu nam 477 milljónum króna.

Skuldir Regins jukust talsvert frá áramótum. Þær vaxtaberandi skuldir voru 32.345 milljónir króna í lok annars ársfjórðungs en voru 24.837 milljónir um síðustu áramót. Í uppgjörinu segir að á fyrra helming ársins var lokið við kaup á fasteignasafni RA 5 ehf. (Klasa Fasteignir ehf). Í júní var svo tilkynnt um kaup félagsins á fasteignum sem hýsa Hótel Óðinsvé. Í júlí var kynnt undirritun á kaupsamning á 8.000 m2 verslana og þjónusturýmum á Hörpureitum 1 og 2 við Austurbakka sem afhentir verða félaginu tilbúnir til útleigu um  árið 2017. Hlutafé félagsins var aukið á tímabilinu í tengslum við kaup á RA 5 ehf. Hlutafé í Regin fyrir hlutafjáraukninguna var 1.300.000.000 krónur að nafnvirði en er að henni lokinni 1.428.700.000 krónur að nafnvirði. Áfram verður horft til stækkunar félagsins í samræmi við Fjárfestingastefnu þess, að því er segir í tilkynningu.

Stærstu eignir Regins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.

Selja eignir og hagræða

Stjórnendur fasteignafélagsins Regins telja horfur í rekstri góðar og engar vísbendingar eru um annað en að áætlanir félagsins standistí öllum aðalatriðum. Áherslur í rekstri næstu mánuði eru á útleigumál, hagræðingu í rekstrarkostnaði og sala minni óhagkvæmra eigna.