Fasteignafélagið Reginn skilaði rúmlega 2,9 milljarða hagnaði á síðasta ári. Til samanburðar var hagnaðurinn rúmlega tvöfalt meiri árið 2021, eða tæpir 6,2 milljarðar króna. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Rekstrarhagnaður Regins fyrir matsbreytingu og afskriftir var umfram áætlanir félagins, nam 8,4 milljörðum króna og hækkaði um 10% milli ára. Velta félagsins nam 12,2 milljörðum króna og jókst um rúman milljarð á milli ára. Þar af hækkuðu leigutekjur um 11% á milli ára.

Bókfært virði fjárfestingareigna Regins í lok árs var tæpir 174 milljarðar króna samanborið við 161 milljarða í árslok 2021.

Virði fjárfestingareigna félagsins að frádregnum leigueignum er metið á 170,4 milljarða króna. Safnið samanstendur af 100 fasteignum sem alls eru um 373 þúsund fermetrar. Eignasafn Regins hefur minnkað, bæði í fjölda eigna sem og í fermetrum.

Vaxtaberandi skuldir Regins voru 109 milljarðar króna í lok árs samanborið við 96 milljarða árið áður. Eigið fé félagsins er bókfært á 54 milljarða króna og er eiginfjárhlutfallið 29,8% í lok árs.

Stjórn félagsins leggur til að ekki verður greiddur arður vegna ársins 2022, en félagið er að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða.

Gengi bréfa Regins hefur lækkað um 8% það sem af er ári og stendur nú í 25,2 krónum á hlut.