Hagnaður kínverska snjallsímaframleiðandans Xiaomi jókst um 51% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs samkvæmt uppgjöri fyrirtækisins. Sala nýrra snjallsíma hefur nú náð sér á strik eftir heimsfaraldur og mun fyrirtækið kynna sinn fyrsta rafbíl í næstu viku.

Samkvæmt uppgjöri Xiaomi nam hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2023 657 milljónum dala. Var það meiri hagnaður en á sama tíma árið 2022 en aðeins minni en á þriðja ársfjórðungi síðasta árs. Hagnaðurinn var þó mun meiri en spá FactSet sem gerði ráð fyrir 460 milljóna dala hagnaði.

Þá jukust tekjur fyrirtækisins um 11% miðað við sama tíma í fyrra en þær námu um tíu milljörðum dala og voru einnig hærri en spár sérfræðinga gerðu ráð fyrir.

Fyrir árið í heild nam hagnaður 2,4 milljörðum dala, sem er sjöfalt meiri hagnaður en árið 2022 þegar faraldurinn hafði mikil áhrif á sölu snjallsíma. Tekjur fyrirtækisins drógust þó saman um 2,3% milli ára.

Greint var frá því í síðustu viku að fyrsti rafbíll frá Xiaomi fari á göturnar þann 28. mars og mun fyrirtækið fjárfesta 10 milljörðum dala í bílaframleiðslu næstu tíu árin.

Innkoma Xiaomi á þennan markað kemur á sama tíma og fyrirtæki eins og BYD og Tesla í Kína eiga í verðstríði.