Viðskiptablaðið greindi frá því í gærmorgun að Josef Ackermann, bankastjóri Deutsche Bank, teldi áhyggjur af bankakerfinu á Spáni ættu ekki rétt á sér og að vandamálin væru viðráðanleg. Jafnframt sagði Ackermann að Spánn þyrfti ekki á neyðaraðstoð að halda.

Samkvæmt þýska seðlabankanum (d. Bundesbank) eru hagsmunir þýskra banka á Spáni gríðarlegir. Í ágúst á þessu ári skulduðu spænskir aðilar þýskum bönkum 146,8 milljarða evra, rúma 22 þúsund milljarða króna. Ekki sést í tölum seðlabankans hver skiptingin er milli þýsku bankanna, en Deutsche Bank er lang stærsti banki landsins. Því eru hagsmunir bankans að hrunið í Grikklandi og Írlandi færist ekki yfir til Spánar. Álagið á 5 ára skuldabréf útgefin af spænska ríkinu lækkuðu verulega í gær og er nú 316, umtalsvert hærra en Ísland sem er í kringum 290.