Bandaríska fasteignalánafyrirtækið Fannie Mae hagnaðist um 2,7 milljarða dala, jafnvirði 340 milljarða króna, á fyrsta ársfjórðungi. Félagið lenti í vandræðum þegar fasteignabólan sprakk vestanhafs í aðdraganda hrunsins og varð bandaríska ríkið að taka félagið yfir og leggja því til tæpar 120 milljarða dala til að forða því frá hruni í september árið 2008.

Til samanburðar tapaði Fannie Mae 2,4 milljörðum dala á fjórða ársfjórðungi í fyrra og 6,5 milljörðum á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Fram kemur í umfjöllun netmiðilsins The Street að tekjur hafi numið 3,1 milljarði dala á fyrstu þremur mánuðum ársins og hafi það nýst til að greiða 2,8 milljarða dala aftur til ríkisins. Stjórnendur fyrirtækisins segja stöðuna hafa batna svo að það þurfti ekki á frekari ríkisaðstoð að halda.